Saturday, November 13, 2010

Saga SMFÍ Forsaga félagsins og upphaf svæðameðferðar á Íslandi

Í nóvember 1977 kom hingað til landsins Norðmaður að nafni Harald Thiis sem hélt fyrsta námskeiðið í svæðameðferð á Íslandi. Var strax mikil áhugi á svæðameðferð, 28. april 1978 voru stofnuð samtökin “Svæðameðferð og heilsuvernd” og eru þau samtök forveri þeirra félaga sem eru starfrægt hér í dag.
Eftir aðalfund þann 21. maí 1981 varð nafnbreyting á félaginu þar sem nafninu var breytt í "Félagið svæðameðferð". Árunum þar á eftir voru haldin mörg námskeið í svæðameðferð en árið 1989 var stofnaður skóli sem nefndur var Svæðameðferðaskóli Íslands, útskrifaði hann tvo árganga en hætti svo starfsemi.
Saga Svæðameðferðar
Svæðameðferð er ævagömul handiðn, sem er sögð hafa rætur að rekja til margra fornra menningarsamfélaga, þar má nefna Egypta, Kínverja, Indverja, Grikki og Indjána Norður Ameríku. Svæðanudd á rætur að rekja til aðferða lækna í Egyptalandi hinu forna. Á veggmyndum frá 2.300 f.Kr., sem fundust í grafhýsi egypska læknisins Ankhmahars í Sakkara, má sjá tvo lækna nudda fætur og hendur tveggja “sjúklinga”. Forn Kínverjar þróuðu svo þessa þrýstipunkta aðferð. Þeir komust að því að fætur eru næmasti líkamsparturinn og hefur að geyma mikil orkugefandi svæði.
Nútímasvæðameðferð
Það var bandaríski háls-, nef-, og eyrnalæknirinn, Dr. William Fitzgerald sem endurvakti svæðameðferð hér á vesturlöndum snemma á síðustu öld. Dr. Fitzgerald komst að þeirri niðurstöðu að beinn þrýstingur á svæði fóta og handa gat haft bæði deyfandi og örvandi áhrif annarstaðar í líkamanum. Hann studdist við gömlu fræðin og þróðaði nýja svæðameðferðartækni, hélt fyrirlestra, gaf út bókina Zone-therapy með þessum nýju aðferðum, kenndi og prófaði sig áfram á fjölda manns.
Það voru ekki margir læknar sem sýndu þessu “nýja” meðferðarformi áhuga. En það var þó einn Dr. Joseph Riley og sjúkraþjálfari hans EUNICE INGHAM (1879-1974) sem ætti með réttu að vera nefnd móðir nútíma svæðameðferðar því það var árangur hennar, óþreytandi rannsóknir og vinnusemi sem hefur gert svæðameðferð að því sem það er í dag. Það var hún sem vann það vandasama verk að kortleggja svæði fóta og handa. Hún þróðaði til þess sérstaka nuddtækni sem hefur verið nefnd eftir henni, Ingham aðferðin. Hún gaf út bækurnar Frásagnir fóta I og II sem Örn og Örlygur gáfu út árið 1976 og 1977.
Hvað er svæðameðferð?
Svæðameðferð byggist á þeirri kenningu að í fótum og höndum séu viðbragðssvæði sem tengist og samsvari hverjum líkamshluta og hverju líffæri líkamans. Ef þessir líkamshlutar eða líffæri eru veikluð að einhverju leyti vegna álags, þreytu eða sjúkdóma, verða viðbragðssvæði þessi aum viðkomu. Þessi aumu svæði skilgreinast oft sem þykkildi, samanþjöppun af örsmáum ögnum eða einfaldlega sem spenna , sem þjálfaður meðferðaraðili getur numið.
Svæðameðferð er mjög áhrifa- og árangursrík meðferð sem virkjar lækningamátt líkamans sjálfs. Líkaminn vinnur "viðgerðarstörf" sín best í djúpri slökun sem svæðameðferð veitir. Þegar við erum hraust erum við orkumikil, en orkulítil þegar við erum of þreytt, undir of miklu álagi eða veik. Svæðameðferð eflir orkufæðið og blóðstreymið. Súrefnisupptakan í líkamanum verður eðlilegri og andlegt og líkamlegt atgerfi eykst. Þetta er meðferðarform sem vinnur heildrænt að jafnvægi.

No comments:

Post a Comment